Rósa Ingvarsdóttir, skólastjóri í Helgafellsskóla byrjaði á því að bjóða nemendur og gesti velkomna. Andri Stefánsson, framkvæmdarstjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands tók síðan við og flutti stutt ávarp og stjórnaði dagskrá. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra tók fyrstur til máls og hvatti börnin til að nota virkan ferðamáta í og úr skóla og hann hvatti líka foreldrana til að gera slíkt hið sama á leið til vinnu. Næstur tók Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra til máls, hann hvatti nemendur til að huga að líkamlegri og andlegri heilsu og minnti á hvað lýðheilsa væri mikilvægt fyrir alla. Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar tók því næst til máls og þakkaði ÍSÍ fyrir að hafa í gegnum árin hvatt þjóðina til virkni með lýðheilsuverkefnum. Því næst tók Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri til máls og minnti krakkana á að lögreglan er til staðar fyrir alla, en allir þurfi líka að passa hvort annað í umferðinni og fara varlega. Hún hvatti nemendur til að vera sýnileg í umferðinni og minnti á nauðsyn endurskinsmerkja. Að ávörpum loknum afhenti Andri Stefássonn, Rósu Ingvarsdóttur, skólastjóra Helgafellsskóla, Göngum í skólann fánann. Sirkus Íslands lék svo listir sínar fyrir viðstadda sem skemmtu sér konunglega áður en aðstandendur verkefnisins, ráðherrar, ríkislögreglustjóri, nemendur, starfsfólk og aðrir gestir gengu verkefnið formlega af stað.
Meginmarkmið Göngum í skólann er að hvetja nemendur og foreldra á Íslandi til að ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til og frá skóla, hvetja til aukinnar hreyfingar og fræða börn um ávinning reglulegrar hreyfingar. Með þessu er ætlunin að hvetja til heilbrigðs lífsstíls fyrir alla fjölskylduna en hreyfing vinnur m.a. gegn lífstílstengdum sjúkdómum, stuðlar að streitulosun og betri sjálfsmynd. Einnig er markmiðið að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og kenna reglur um öryggi á göngu og á hjóli. Þar að auki er markmiðið að draga úr umferð við skóla og stuðla að betra og hreinna lofti ásamt öruggari og friðsælli götum og hverfi. Um leið er verið að stuðla að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál: Hversu ,,gönguvænt“ umhverfið er og hvar úrbóta er þörf.
Í ár tekur Ísland þátt í 17. skipti í alþjóðlega verkefninu Göngum í skólann. Verkefnið hófst í Bretlandi árið 2000 og hefur þátttaka stöðugt farið vaxandi. Hér á landi fer skráning skóla mjög vel af stað og auðvelt er fyrir skóla að bætast í hópinn. Á alþjóðavísu er Göngum í skólann mánuðurinn í október og alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn er 4. október. Vegna birtu og veðuraðstæðna fer Göngum í skólann verkefnið fram hér á Íslandi í septembermánuði og því lýkur á alþjóðlega Göngum í skólann deginum þann 4. október.
Þeir sem að verkefninu standa hérlendis eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Mennta- og barnamálaðuneytið, Embætti landlæknis, Ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Samgöngustofa og Landssamtökin Heimili og skóli.
Fleiri myndir má finna hér