Skólasetning hefur nú farið fram í flestum grunnskólum landsins og skólabörn um land allt eru farin að mæta aftur í skólann eftir sumarfrí. Við hvetjum starfsfólk skóla, foreldra og nemendur til að tileinka sér virkan ferðamáta til og frá skóla strax í upphafi skólaárs.
Göngum í skólann verkefnið hefst formlega þann 8. september næstkomandi. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta og hjólabretti. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða.
Skráning í Göngum í skólann er í fullum gangi en nú þegar hafa 31 skólar skráð sig til þátttöku í verkefninu. Hægt er að skrá skólann til þátttöku hér á heimasíðu verkefnisins þar til 6. október sem er alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn.