Göngum í skólann verkefnið fer vel af stað en alls 73 skólar eru skráðir til þátttöku í verkefninu.
Víkurskóli sendi nýlega inn frásögn og myndir á vefsíðu verkefnisins en þátttökuskólar eru hvattir til þess að senda myndir, frásagnir og/eða myndbönd af verkefninu. Smelltu hér til þess að senda inn efni.
„Víkurskóli tekur þátt í Göngum í skólann og hófst verkefnið stundvíslega á fyrsta degi verkefnisins þann 4. september. Í Víkurskóla eiga þess ekki allir kost að koma hjólandi eða gangandi í skólann þar sem hluti nemenda er í skólaakstri og því munum við brydda upp á ýmsu utan dyra, göngu, hlaupi og leikjum á þessu tímabili. Við erum svo heppin að næsta nágrenni Víkurskóla er ein risa útikennslustofa. Fjölmargar gönguleiðir og fjölbreytt náttúra. Þá verður fræðsla um hvernig best og öruggast er að haga ferðum sínum í umferðinni. Á fyrsta degi verkefnisins fór allur skólinn í hressilegan göngutúr í Víkurfjöru fyrir hádegismatinn og notaði tækifærið í leiðinni að plokka rusl á gönguleiðinni. Allir komu mjög hressir tilbaka.“