Þónokkuð af frásögnum frá grunnskólum hafa borist vegna Göngum í skólann. Hvaleyraskóli sendi meðal annars frásögn af því sem fram fór í skólanum í tilefni af verkefninu. Þar er keppt um Gullskóinn milli árganga og þar að auki kom til þeirra aðili frá Samgöngustofu á sal með fræðslu varðandi umferðaröryggi. Allir nemendur fengu endurskinsmerki og upplýsingar voru sendar heim til foreldra og þau hvött til þess að ræða umferðaröryggi heimafyrir. Þar að auki voru umsjónakennarar hvattir til þess að prófa úti-hléæfingar til að brjóta upp kennslu, með áherslu á göngu og/eða skokk einn hring í kringum skólann.
Meginmarkmið Göngum í skólann er að hvetja nemendur og foreldra á Íslandi til að ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til og frá skóla, hvetja til aukinnar hreyfingar og fræða börn um ávinning reglulegrar hreyfingar. Einnig er markmiðið að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og kenna reglur um öryggi á göngu og á hjóli.
Það virðist ganga vel í skólunum að fylgja þessum markmiðum eftir og er gaman að fylgjast með þeim fjölbreyttu útfærslum af verkefninu sem fara fram í skólum.