Okkur hafa borist þónokkrar frásagnir af því sem hefur verið gert í skólum í tilefni af Göngum í skólann. Húsaskóli sendi frásögn af metnaðarfullu starfi sem er í gangi hjá þeim og má lesa frásögnina hér:
Húsaskóli flautaði til leiks 5.september. Nemendur og starfsfólk skólans komu saman á sal þar sem að Göngum í skólann var formlega sett. Í kjölfarið var haldið í létta göngu í hverfinu.
Nemendur Húsaskóla hafa verið mjög virkir og áhugasamir í tengslum við Göngum í skólann og er gaman að sjá hvað hefur myndast góð og metnaðarfull stemmning í bekkjunum til að gera vel.
Allir nemendur merkja daglega við sinn ferðmáta. Skráningarplaggið verður svo til dæmis notað í stærðfræði, til að gera súlurit, finna út prósentur og fleira.
Í hverri viku fá allir bekkir verkefni og áskorun til að leysa. Verkefnin eru til dæmis núvitundarganga, ganga út í grenndarskóginn okkar og kortaganga um hverfið þar nemendur sýna hvað þeir eiga heima. Áskoranir vikunnar eru til dæmis að plokka í nærumhverfi skólans og vigta, slökunaræfingar og að planka.
Miðvikudaginn 19. september tók Húsaskóli þátt í Ólympíuhlaupinu og höfðu nemendur gaman af. Boðið var upp á nokkrar hlaupaleiðir og má til gamans geta að nokkrir nemendur fóru létt með 10 km.
Þegar allar 4 vikurnar eru liðnar verða skráningar teknar saman og að því loknum verða Göngum í skólann sigurvegarar krýndir á sal skólans.