Grunnskóla Vestmannaeyja hóf sína þátttöku í Göngum í skólann 2017 formlega þann 7. september með því að vinabekkir innan skólans hittust og áttu góðan dag saman. Elstu nemendurnir í 8.-, 9.- og 10. bekk hittu þá yngstu í 1.-, 2.- og 3. bekk, hlustuðu á þá lesa og hjálpuðu þeim við námið. Í lokin fóru svo allir í frímínútur og léku sér saman.
Á Týsvellinum hittust svo 4.-, 5.-, 6.- og 7. bekkir og fóru saman í hópeflisleiki. Í lokin fengu allir nemendur ávexti og skólastjórinn upplýsti nemendur hvað fælist í verkefninu og mikilvægi þess.
Áberandi þykir hversu mikinn mun má sjá á umferð í kringum skólann á morgnanna sem og fjölda reiðhjóla fyrir utan skólann. Það má því með sanni segja að verkefnið fari vel af stað í Vestmannaeyjum og sé að ná sínu markmiði.
Í vikunni fór 3.bekkur Húsaskóla í gönguferð í grenndarskóg til að gera náttúruathuganir í vísindalegum tilgangi. Nemendurnir undirbjuggu sig vel og gerðust svo rannsóknarmenn með því að grandskoða lífríkið í skóginum. Þeir höfðu fræðst um hin ýmsu tré, laufblöð og plöntur sem þau leituðu að í skóginum og rannsökuðu svo gaumgæfilega.
Verkefnið og göngutúrinn vísindalegi var bæði í tilefni af Göngum í skólann sem og degi íslenskrar náttúru sem var þann 16. september síðastliðinn. Til að ná sem mestri og bestri hreyfingu út úr skógarferðinni þá skelltu nemendurnir sér í áskorun vikunnar sem var að planka í 45 sekúndur.