Glerárskóli hefur gert víðreist og farið í margar gönguferðir innan Akureyrar í tilefni af Göngum í skólann 2017. Nemendur í 5. bekk fóru í gönguferð niður í Kvenfélagslund sem er útivistarsvæði skólans. Bjart var í veðri og mikil gleði í gönguhópnum. Kennarar fræddu nemendur um umhverfismál og gagnsemi virks ferðamáta ásamt því að taka hressandi æfingar á grasflötinni. Lögð var áhersla á hópefli og samvinnu ásamt því að rætt var um hvernig "hið fullkomna skólasamfélag" væri í þeirra augum.
Þá fór 10. bekkur í göngutúr til að skoða áhrif mannsins á náttúruna og athuguðu þau sérstaklega Glerá og umhverfi hennar. Þau gengu upp með ánni til að skoða hvar og hvernig maðurinn hefur sett mark sitt á umhverfi hennar. Þá voru brýrnar yfir hana taldar og mynd tekin á gömlu brúnni yfir Glerá við það tækifæri. Þá hefur einnig verið í gangi hjólavika í íþróttum dagana 11.-15. september hjá 5.10.bekk og farið var í marga mislanga hjólreiðatúra því tengdu. Þeir sem ekki áttu hjól fengu þau lánuð og að sjálfsögðu lagði enginn af stað án þess að vera með hjálm á höfðinu.
Þá var birt á Facebook-síðu BeActive Iceland glæsilegt myndband sem tekið var upp á setningarhátíð Göngum í skólann sem fór fram í Víðistaðaskóla þann 6. september. BeActive eru einkunnarorð Íþróttaviku Evrópu sem fer fram 23.-30. september og er Göngum í skólann hluti af því átaki. Við hvetjum alla til að notast við myllumerkið #BeActive og að vera virkir í að hvetja börn og unglinga til að hreyfa sig reglulega.
Hér má sjá myndband frá setningarhátíð Göngum í skólann í Víðistaðaskóla