Mikil stemmning er meðal þátttakenda í Göngum í skólann 2017 og um allt land eru skólar að standa fyrir flottum viðburðum í tilefni af verkefninu. Myndir og frásagnir streyma til okkar þessa dagana og frábært að sjá og heyra af hversu vel gengur.
Á hverju hausti fara allir árgangar Grunnskólans á Ísafirði í fjallgöngur í nágrenni bæjarins. Í upphafi skólagöngunnar er byrjað á að fara upp í Stórurð en svo smám saman verða göngurnar meira krefjandi og fær hver árgangur úthlutað sinni gönguleið. Þegar grunnskólagöngunni lýkur hafa því allir nemendur kynnst fjölmörgum fjallgönguleiðum í kringum Ísafjarðarbæ, s.s. upp í Naustahvilft, á Hnífa, Sandfell og Kistufell svo fátt eitt sé nefnt. Þessa dagana hafa nemendur skundað upp um fjöll og firnindi og fór 10. bekkur t.d. siglandi norður í Grunnavík í gær og gekk þaðan yfir á Flæðareyri.
Einnig fór 6.bekkur upp á Sandfellið sem er staðsett á skíðasvæði Ísfirðinga. Nemendur og kennarar gengu frá gönguskíðasvæðinu á Seljalandsdal á Sandfellið og þaðan niður í Tungudal sem er svigskíðasvæðið. Frábær dagur í fjalladýrð eins og myndirnar hér að neðan bera með sér.
Sunnar á landinu hafa nemendur Þjórsárskóla verið duglegir við að leggja land undir hjól en skólinn hefur verið virkur þátttakandi í Göngum í skólann undanfarin ár. Þar hafa skapast góðar hefðir í kringum verkefnið og einn fastur liður í því er hjólaferð um sveitina og fóru allir nemendahópar í hjólatúra mánudaginn 11. september síðastliðinn.
Hjólað var mislangt eftir aldri nemenda en 6. og 7. bekkur hjóluðu lengst eða alls 12 km á malarvegi og á einum stað þurfti að fara yfir ánna Kálfá sem rennur um sveitina. Sumir hjóluðu yfir ána þar sem það var hægt en aðrir fengu far með jeppa sem ferjaði yfir. Þetta var erfið leið og þrátt fyrir brekkur og mótvind þá hörkuðu krakkarnir af sér til að komast glaðir og stoltir á leiðarenda.
Á leiðinni mættu hjólagarparnir olíubíl og mjólkurbíl ásamt traktor með heyvinnslutæki en allur skólinn fær fræðslu um umferðaröryggi og hvað bera að varast á vegum úti. Mikilvægt var því að hafa farið vel yfir umferðarreglurnar og geta notfært sér þær í raun en allir voru í endurskinsvestum.
Þetta var frábær dagur hjá Þjórsárskóla í sveitinni eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem þeir deildu með okkur: