Skráning í Göngum í skólann 2017 gengur mjög vel og nú þegar er búið að jafna þann fjölda skóla sem skráðu sig til þátttöku í fyrra en þá tóku 67 skólar þátt. Hægt verður að skrá grunnskóla til þátttöku fram að hinum alþjóðlega Göngum í skólann degi sem er 4. október nk.
Hér er hægt að skrá sinn skóla til þátttöku.
Nemendur Rimaskóla koma saman á sal í tilefni af upphafi Göngum í skólann og Helgi Árnason skólastjóri ávarpaði nemendur og fræddi þau um mikilvægi hreyfingar, hollustu og heilbrigðis.
Allir nemendur skólans fóru að því loknu út og gengu hollustuhring umhverfis skólann með sínum umsjónarkennurum. Nemendur í 6.bekk gerðu gott betur með því að fara í fjallgöngu á Úlfarsfellið þann 7. september eins og sjá má á flottum myndum sem deilt var með okkur hér á heimasíðunni. Þeir lögðu land undir fót í blíðskaparveðri, glampandi sól og spegilsléttum sjó á sundunum. Vaskir nemendur gengu fylktu liði með nesti og nýja skó og gleðin var mikil uppi á fellstoppi sem og á jafnsléttu. Flott framtak hjá Rimaskóla og við þökkum þeim fyrir að deila því með okkur.