Lýðheilsustöð hafði frumkvæði að því að koma verkefninu á koppinn hér á landi. Frá upphafi hafa sömu aðilar verið bakhjarlar verkefnisins. Haustið 2007 var Göngum í skólann fyrst haldið hér á landi. Árið eftir tók svo Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands að sér að leiða verkefnið áfram. Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir hvar átakið hefur verið sett og fjölda þátttökuskóla ár hvert.
Göngum í skólann 2007 var sett í Grunnskóla Seltjarnarness. Það var Þórólfur Þórlindsson forstjóri Lýðheilsustöðvar sem setti verkefnið. Að setningunni lokinni gengu aðstandendur þess og nemendur skólans um næsta nágrenni í fylgd ríkislögreglustjóra. Þátttökuskólar voru 26.
Árið 2008 var opnun Göngum í skólann haldin í Grundaskóla á Akranesi. Ávarp flutti Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ. Karl V. Matthíasson þingmaður, nefndarmaður í Samgöngunefnd og formaður Umferðarráðs setti verkefnið formlega. Alls tóku 35 skólar þátt í Göngum í skólann árið 2008.
Guðni Ágústsson fyrrverandi þingmaður og ráðherra setti Göngum í skólann 2009 formlega í Flóaskóla. Einnig fluttu ávörp þau Kristín Sigurðardóttir skólastjóri og Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður á Selfossi. Að lokinni setningu fóru nemendur skólans yfir öryggisreglur í skólaakstri. Það árið tóku 36 skólar þátt í verkefninu.
Árið 2010 setti Ögmundur Jónasson samgöngu- og sveitastjórnarráðherra Göngum í skólann. Setningin fór fram í Fossvogssdalnum með þátttöku Snælands og Fossvogsskóla. Nemendur gengu fylgtu liði úr hvorum skóla fyrir sig að grasblettinum sem setningin var haldin á. Að setningunni lokinni fóru nemendur í ratleik um svæðið. Oddný Sturludóttir formaður menntasviðs Reykjavíkurborgar og Rannveig Ásgeirsdóttir formaður skólanefndar Kópavogsbæjar fluttu ávörp við setninguna. Metfjöldi skóla tók þátt, alls 52.
2011 var Göngum í skólann sett í Síðuskóla á Akureyri. Við setninguna töluðu Ólafur B. Thoroddsen skólastjóri Síðuskóla, Viðar Sigurjónsson sviðsstjóri fræðslu- og þróunarsviðs ÍSÍ, Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Akureyrar sem setti átakið formlega og Sindri Snær Konráðsson nemandi í 10 bekk sem talaði fyrir hönd nemenda. Að setningarathöfninni lokinni gengu allir nemendur skólans um nágrennið með hvatningarspjöld sem bentu á ágæti þess að ganga í skólann. Enn á ný var þátttökumet slegið með skráningu 59 skóla.
Göngum í skólann 2012 var sett formlega í Kelduskóla í Grafarvogi af Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra. Auk hans fluttu ávörp þau Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ og Árni Inga Pálsdóttir skólastjóri Kelduskóla. Við setninguna spilaði hljómsveitin Moses Hightower og veitti þátttakendum andagift með flutningi á lagi sínu stutt skref. Metfjöldi skóla tók þátt en 63 skólar skráðu sig til leiks.
Við setningu Göngum í skólann 2013 í Álftanessskóla fluttu ávarp þeir Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ og Hörður Már Harðarson formaður slysavarnafélagsins Landsbjargar. Við athöfnina söng Sigríður Thorlacius við undirleik Daníels Friðriks Böðvarssonar gítarleikara m.a. lagið Leiðir liggja til allra átta. Átakið var svo sett formlega með því að nemendur úr Álftanessskóla ýmist hjóluðu eða gengu hring í næsta nágrenni skólans. Auk grunnskólabarna gengu nemendur úr leikskólunum á Álftanesi, Krakka- og Holtakoti.